Handbolti

Hannes Jón skoraði níu í sigri Eisenach

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Jón Jónsson í leik með íslenska landsliðinu.
Hannes Jón Jónsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Valli
Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni í þýska handboltanum í dag en þá var keppt í efstu tveimur deildunum.

Tveir léku í úrvalsdeildinni og báðir fyrir Wetzlar sem tapaði fyrir Melsungen, 28-25. Fannar Friðgeirsson skoraði tvö mörk í leiknum en Kári Kristján Kristjánsson ekkert.

Þetta var fyrsta tap Wetzlar á tímabilinu en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með sex stig eftir fjórar umferðir. Rhein-Neckar Löwen, Füchse Berlin, Kiel og Flensburg eru öll með fullt hús stiga en eftir mismarga leiki.

Önnur umferð tímabilsins í B-deildinni hófst svo í dag með fimm leikjum og komu Íslendingar við sögu í fjórum þeirra.

Hannes Jón Jónsson skoraði níu mörk fyrir Eisenach, lið Aðalsteins Eyjólfssonar, sem vann sigur á Saarlouis, 31-28.

Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue sem vann Erlangen, 27-24, en Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Aue.

Árni Þór Sigtryggsson skoraði fimm mörk fyrir Friesenheim sem tapaði fyrir Leipzig á heimavelli, 26-25.

Þá var Íslendingaslagur í Emstedden þar sem heimamenn unnu öruggan sigur á Bergischer, 24-18. Ernir Hrafn Arnarson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten og Arnór Gunnarsson tvö fyrir Bergischer.

Emsdetten og Eisenach er með fjögur stig eftir tvo leiki, Aue og Bergischer með tvö en Friesenheim hefur tapað báðum sínum leikjum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×