Handbolti

Mikilvæg stig undir gegn Noregi í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson, leikmaður íslenska landsliðsins.
Alexander Petersson, leikmaður íslenska landsliðsins. Mynd/Vilhelm
Það er ljóst að leikurinn gegn Noregi á EM í handbolta í kvöld hefur mikla þýðingu fyrir framhaldið hjá strákunum okkar.

Eins og á undanförnum stórmótum í handbolta tíðkast sú regla að liðin sem komast áfram í milliriðlakeppnina taka með sér stigin sem þau unnu sér inn gegn öðrum liðum sem einnig komast áfram.

Þau lið sem fara í milliriðlakeppnina án stiga eiga nánast engan möguleika á sæti í undanúrslitum en þangað fara tvö efstu lið úr hvorum milliriðli.

Ísland er án stiga eftir tap fyrir Króatíu á mánudaginn og verður því helst að ná góðum úrslitum gegn Noreg og Slóveníu til að fara áfram með tvö stig. Slóvenía gæti reyndar sett allt reikningsdæmið í uppnám með því að vinna Króatíu í dag en það verður að teljast nokkuð ólíklegt - enda Króatía með eitt allra besta landslið heims.

Þrjú efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í milliriðlakeppnina. Ef Ísland og Króatía vinna sína leiki í kvöld er ljóst að jafntefli gegn Slóveníu á föstudaginn mun duga Íslandi til að fara áfram í milliriðlakeppnina með tvö stig - því þá myndi Slóvenía sitja eftir.

Norðmenn líta í það minnsta á leikinn í kvöld sem lykilviðureign upp á framhaldið að gera - þó svo að þeir séu þegar með tvö stig. „Ef Slóvenía vinnur Króatíu og svo Ísland á föstudaginn - sem mér finnst reyndar afar ólíklegt - þá gætum við flogið heim um helgina," sagði varnarmaðurinn Johnny Jensen hjá Noregi en hann verður í banni gegn Íslandi í kvöld.

„Héðan í frá verðum við að berjast um þau stig sem við getum tekið með okkur í milliriðlakeppnina."

Ef Ísland tapar í kvöld verða strákarnir að vinna Slóvena á föstudaginn til að komast áfram og þá án þess að taka nein stig með sér.

Leikir dagsins í D-riðli:

17.10 Slóvenía - Króatía

19.10 Ísland - Noregur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×