Erlent

Auðkýfingur og Íslandsvinur þróar stærstu flugvél veraldar

Auðkýfingurinn og Íslandsvinurinn Paul Allen mun smíða stærstu flugvél veraldar innan fimm ára. Vænghaf flugvélarinnar verður 117 metrar en það er 30 metrum meira en á Airbus 380, stærstu flugvél heims.

Flugvélin kallast Stratolaunch. Hún er hönnuð til þess að flytja geimhylki og farm hátt upp í andrúmsloft jarðar. Þegar vélin nær nægilegri hæð sleppir hún hylkjunum en þau halda áfram út í geim.

Stratolaunch verður knúin af sex þotuhreyflum og kemur til með að þurfa tæplega fjögurra kílómetra langa flugbraut fyrir flugtak og lendingu.

Fyrirtæki Allens, Stratolaunch System, mun hefja tilraunaflug á næstu árum. Hann vonast til þess að Stratolaunch muni á endanum flytja farþega á sporbraut um jörðu.

Allen, sem er einn af stofnendum Microsoft, sér mikið tækifæri í geimferðum eftir að Geimferðastofnun Bandaríkjanna lauk geimferðaáætlun sinni.

Allen var staddur á Íslandi í ágúst árið 2010. Hann kom á risasnekkjunni Octopus til landsins og vakti heimsóknin talsverða athygli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×