Handbolti

Svíþjóð er möguleiki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Guðmundsson á ferðinni með landsliðinu á EM í janúar síðastliðnum.
Ólafur Guðmundsson á ferðinni með landsliðinu á EM í janúar síðastliðnum. Mynd/Vilhelm
Það liggur ekki enn fyrir hvaða lið stórskyttan Ólafur Andrés Guðmundsson leikur næsta vetur. Ólafur er samningsbundinn danska meistaraliðinu AG en hefur verið lánaður frá félaginu hingað til og ekki enn leikið fyrir AG.

Ólafur á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við AG og samkvæmt heimildum íþróttadeildar er talið líklegt að hann verði lánaður til sænska félagsins Kristianstad.

„Ég hef heyrt frá þeim og það kemur til greina eins og annað. Ég hef líka heyrt í fleiri liðum í Svíþjóð," sagði Ólafur.

Kristianstad fór alla leið í úrslitaleikinn um sænska meistaratitilinn síðasta vetur en þjálfari liðsins er Ola Lindgren sem hefur verið að þjálfa sænska landsliðið með Staffan Olsson. Lindgren og Magnus Andersson, þjálfari AG, eru gamlir félagar.

„Ég veit ekki hvað verður um mín mál. AG gæti samið við mig upp á nýtt, lánað mig eða hreinlega selt mig til annars félags. Þetta skýrist vonandi fljótlega," sagði Ólafur og bætir við að hann vilji helst vera hjá liði þar sem hann fær að spila mikið.

Hann er að jafna sig eftir aðgerð á öxl og nýbyrjaður að kasta aftur.

„Öxlin var búin að plaga mig lengi og það varð að gera eitthvað. Ég fór því í speglun fyrir um níu vikum og öxlin verður vonandi betri í kjölfarið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×