Handbolti

Jesper Nielsen hættur hjá AGK | Félagið komið í sölu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jesper Nielsen.
Jesper Nielsen. Nordicphotos/Getty
Jesper Nielsen, eigandi danska handknattleiksfélagsins AG Kaupmannahafnar, er hættur sem stjórnarformaður félagsins. Þá hefur hann auk fjölskyldu sinnar sett ráðandi eignarhlut sinn í félaginu í sölu. Ekstrabladet greinir frá þessu í dag.

Danska félagið hefur verið töluvert í fréttum undanfarið vegna bágrar fjárhagsstöðu. Þrátt fyrir miklar tekjur félagsins hefur það verið rekið með töluverðu tapi. Félagið skuldar leikmönnum sínum bónusgreiðslur auk þess sem Nielsen hefur staðið í stappi við skattayfirvöld í Danmörku. Félagið mun þó hafa samið við leikmenn sína um að greiðslu bónusa í ágúst.

Í yfirlýsingu frá Nielsen segir hann meðal annars vera stoltur af tíma sínum hjá AGK. Hann er þó mjög ósáttur við umfjöllun fjölmiðla í Danmörku og segir að hann og fjölskylda sín hafi hreinlega ekki getað lifað við þá umfjöllun lengur.

Íslendingarnir Arnór Atlason, Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson leika með Kaupmannahafnarliðinu. Arnór og Snorri Steinn eru enn samningsbundnir félaginu en óvissa ríkir með framtíð Ólafs sem liggur undir feld varðandi framtíð sína í handboltanum.

Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Guðmundsson voru einnig á mála hjá liðinu á síðustu leiktíð en hafa nú leitað á önnur mið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×