Handbolti

Dregið í umspil HM í hádeginu - hverjar fá íslensku stelpurnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir.
Rut Jónsdóttir. Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta verður í pottinum í hádeginu þegar dregið verður fyrir umspil um átta laus sæti á Heimsmeistarakeppninni í Serbíu sem fer fram í desember 2014. Drátturinn fer fram í Belgrad í Serbíu og hefst klukkan 12.00 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið komst ekki upp úr sínum riðli á EM í Serbíu og er því eitt af fjórum liðum sem spiluðu á EM sem verða að sætta sig við það að vera í neðri styrkleikaflokknum.

Króatía, Makedónía og Úkraína eru í sömu stöðu og íslenska liðið en í neðri styrkleikaflokknum eru einnig Holland, Pólland, Slóvakía og Tyrkland.

Íslensku stelpurnar munu mæta einni af eftirfarandi átta þjóðum í umspilinu en þær eru allar í efri styrkleikaflokknum: Tékkland, Danmörk, Spánn, Frakkland, Þýskaland, Rúmenía, Rússland eða Svíþjóð.

Leikirnir fara fram 1./2. júni og 8./9. júní en sú þjóða sem nær betri árangri út úr þessum tveimur leikjum, heima og að heiman, mun tryggja sér farseðil á HM í Serbíu.

Íslenska liðið tryggði sér sæti á HM í Brasilíu 2011 með því að slá lið Úkraínu út úr umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×