Veiði

Saga stangveiða: Að kasta 139,70 metra

Svavar Hávarðsson skrifar
Þetta eru mikil vísindi og pælingarnar fyrir 47 árum voru engu minni en á okkar tímum.
Þetta eru mikil vísindi og pælingarnar fyrir 47 árum voru engu minni en á okkar tímum.
Halldór Erlendsson, kennari í Reykjavík og víðar, er af mörgum veiðimönnum talinn hafa verið fremstur meðal jafningja þegar kom að því að veiða á stöng. Halldór fæddist árið 1919 en lést langt fyrir aldur fram aðeins 56 ára að aldri. Á meðan hans naut við má segja að hann hafi verið kunnur öllum sem veiddu á stöng en hann stofnaði Sportvörugerðina sem var lengst af til húsa á heimili hans í Mávahlíð.

Sportvörugerðin þjónaði í yfir 50 ár og tvo ættliði íslenskum stangaveiðimönnum, fyrst með uppsetningu á Split Cane veiðistöngum en síðar glassfíberstöngum bæði undir nafninu Hercon og Islandia. Stangasmíði Halldórs hófst þegar hann fór snemma að lagfæra sínar eigin, en einnig stengur vina sinna síðar. Hann mun hafa vandað mjög til vinnu sinnar og góð stöng var honum metnaðarmál. Um það verða aðrir að vitna en Hercon stöng finnst vart á bökkum veiðivatna lengur, heldur er frekar um safngripi að ræða.

En það er viðtal Ásgeirs Ingólfssonar við Halldór í Lesbók Morgunblaðsins á aðfangadag árið 1965 sem verður gert hér að umtalsefni. Halldór rifjar það upp í viðtalinu að hafa byrjað að veiða í Ósá við Bolungarvík, en þar slepptu menn nokkur þúsund laxaseiðum um tíma og ráku klakhús í frístundum. Hann tók sinn fyrsta lax í Láxá á Ásum árið 1942, og lýsir því að áin sú hafi á þeim árum verið lítt þekkt. Uppáhalds veiðivatn Halldórs var þó Sogið: „Ég hef veitt alls staðar í Soginu. Það er glæsileg á. Að kasta þar er stundum eins og að kasta í hafið,“ segir Halldór sem þar er kominn að aðal umræðuefni viðtalsins; kasttækni Halldórs en í fyrri tíð kepptu menn í köstum [Veiðivísir hvetur lesendur til að senda línu á svavar@frettabladid.is ef þeir þekkja til þess þegar menn héldu kastmót.]

Halldór greinir frá því að fyrstu árin sem hann veiddi í Soginu notaði hann „ellefu feta greenhart kaststöng, og amerískt sjóveiðihjól“ [...] „Það þurfti að kasta langt, helzt að reyna að ná að hinum bakkanum, hvoru megin, sem staðið var. Ég gerði endurbætur á hjólinu. Penn bakelite-hjóli, og gekk mér anzi vel, eftir að ég gat stillt viðnámið. Ég átti það í mörg ár. Það var því í upphafi tilviljun, að ég fór að reyna við löng köst.“

„Það hefur líklega verið um 1950, að ég fór að taka þátt í kastæfingum, og fannst mjög gaman. Kastæfingar eru nauðsynlegar fyrir veiðimenn, enda árleigur háar, og dýrt að æfa sig við veiðar. Því má líkja við mann, sem fær sér riffil með sjónauka, án þess að stilla sjónaukann, eða æfir ekki meðferð tækisins. Sú grein kastæfinga, sem nefnd hefur verið hæfnisköst — „hittiköst", og miðar að mikilli nákvæmni, hefur náð miklum vinsældum víða á Norðurlöndum, einikum í Sviiþjóð. Þar stendur gjarnan í bæjum útbúnaður fyrir alla, sem vilja æfa sig, og nota sér margir af því. Eg veit mörg dæmi um góða flugumenn sem aldrei höfðu notið leiðbeiningar, en náðu meiri og betri árangri, er þeir höfðu tekið þátt í kastæfingum, og endurbætt kastlag sitt. Árlega stunda kastæfingar hjá Stangaveiðifélagi Reykjavikur á annað hundrað manns, margir byrjendur, en þó einnig vanir veiðimenn. Þetta er afar skemmtileg æfing, og öllum þykir gaman að handleika veiðarfæri, ofitar en aðeins í veiðiferðum.“

Þegar hér er komið sögu í viðtalinu ræða þeir félagar um ýmsar breytingar sem voru að verða á veiðibúnaði. „Frá vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem menn veiða í stórum ám, hafa komið svonefndar „skotlínur". Auka þær mjög lengd kasta, og til dæmis má nefna, að með einhendisflugustöng, og slíkri línu, má kasta fimm til tíu metrum lengra, en ef notuð væri eldri gerð flugulína. Svipuð hlutföll gilda um köst með tvíhendisstöngum," lýsir Halldór fyrir blaðamanni sem spyr um hæl um hvort rétt sé að hann hafi náð að kasta lengra en þágildandi „heimsmet í spónkasti.“

Halldór: „Heimsmet verður aldrei sett, nema á heimsmeistaramóti. Ég hef stundum náð ljómandi góðum árangri í spónkasti, t.d. í sumar, á móti Landssambands ísl. Stangaveiðimanna. Náði ég með níu feta „glasfiber"-stöng, rúlluhjóli og 18 gramma lóði, góðri „seríu", frá 95—98 m köstum. Lengsta kastið var 97,60 m. Þá var keppt með þyngri lóðum, 30 gramma. Köstin verða þá mun lengri, og lengst hef ég þannig náð 139,70 m kasti".

Og áfram heldur Halldór en víkur næst að keppni í köstum á flugustöng. „Keppt er með bæði einhendis og tvíhendisstöngum, og nást þá rúmlega 50 m og 60 köst. Í keppni eru þó notaðar sérhæfðar stengur, sem ekki myndu notaðar við veiðar. Með venjulegum stöngum myndu köstin verða mun styttrL Erlendis er áhuginn hvað mestur fyrir hæfnisköstum. Þá er notaður 30 tommu hlemmur, og reyna menn að hæfa hann með flugu, eða kastlóðum, úr 12 til 25 m fjarlægð. Hér fara æfingarnar aðallega fram á vegum SVFR við Rauðavatn, á ýmsum grasflötum í bæjarlandinu, og í KR-húsinu, síðari hluta vetrar,“ segir Halldór.

Ýmsar pælingar Halldórs um laxveiði má lesa í framhaldsgrein á morgun. Þar víkur hann að netaveiði í Ölfusá, og einu og öðru um val á flugum sem forvitnilegt er að lesa sökum þess að viðtalið var birt fyrir réttum 47 árum síðan, en allt eru þetta nú sígildar pælingar.


svavar@frettabladid.is

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.