Handbolti

Geta enn gert betur en karlalandsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir
Þórey Rósa Stefánsdóttir Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið tapaði í gær fyrir Svartfjallalandi í fyrsta leik sínum á EM í Serbíu. Liðið tapaði einnig öllum þremur leikjum sínum á EM fyrir tveimur árum og á því enn eftir að vinna leik í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Íslenska liðið hefur vissulega tapað fjórum fyrstu leikjum sínum á EM en stelpurnar eiga enn möguleika á því að gera betur en karlalandsliðið.

Karlalandsliðið tók fyrst þátt í Evrópumóti á EM í Króatíu í ársbyrjun 2000 en strákarnir okkar náðu ekki að tryggja sér sæti á fyrstu þremur Evrópumótunum, 1994, 1996 og 1998.

Strákarnir töpuðu fyrstu fimm leikjum sínum á EM í Króatíu; á móti Svíþjóð (23-31), Portúgal (25-28), Rússlandi (23-25), Danmörku (24-26) og Slóveníu (26-27). Fyrsti leikurinn vannst ekki fyrr en á móti Úkraínu (26-25) í leiknum um ellefta sætið.

Stelpurnar töpuðu á móti Króatíu (25-35), Svartfjallalandi (23-26) og Rússlandi (21-30) á EM í Danmörku (og Noregi) í desember 2010. Vinni þær í kvöld ná þær fyrsta sigrinum í sínum fimmta leik en strákarnir náði honum ekki fyrr en í leik sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×