Handbolti

Stórleikur Guðjóns dugði ekki til | Kiel tapaði

Það er ekki á hverjum degi sem lið Alfreðs tapar.
Það er ekki á hverjum degi sem lið Alfreðs tapar. vísir/bongarts
Evrópumeistarar Kiel lentu í kröppum dansi í kvöld er þeir sóttu heim hið geysisterka lið Veszprém frá Ungverjalandi í Meistaradeildinni. Sá fáheyrði atburður gerðist að Kiel tapaði leiknum, 31-30.

Leikur liðanna var frábær skemmtun en hann fór fram fyrir troðfullri höll æstra áhorfenda sem létu vel í sér heyra.

Veszprém, sem er nánast skipað öllum landsliðsmönnum Ungverja, var skrefi á undan á lokakaflanum sem var hreint magnaður. Munaði lengstum einu til tveimur mörkum.

Þegar tvær mínútur voru eftir leiddu Veszprém með tveimur mörkum, 31-29. Kiel minnkaði muninn þegar rúm mínúta var eftir. Ungverjarnir fengu að spila í rúma mínútu í lokasókninni og tóku ekku skot fyrr en tvær sekúndur voru eftir.

Það fór framhjá. Kiel tók leikhlé en tíminn var of naumur fyrir þá til að ná skoti á markið.

Guðjón Valur Sigurðsson átti frábæran leik fyrir Kiel og skoraði átta mörk í níu skotum. Aron Pálmarsson gat ekki leikið með vegna meiðsla.

Veszprém er á toppi riðilsins með fullt hús eftir fjóra leiki en Kiel er í öðru sæti með þrjá sigra og eitt tap.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×