Handbolti

Kiel upp í annað sætið eftir 19 marka stórsigur á útivelli - sex íslensk mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel áttu ekki í miklum vandræðum með lið TV 1893 Neuhausen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Kiel vann leikinn með 19 marka mun, 39-20, og komst með því upp í annað sæti deildarinnar.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel alveg eins og Aron Pálmarsson. Tékkinn Filip Jicha var hinsvegar markahæstur í liði Kiel með sjö mörk en Niclas Ekberg og Christian Zeitz skoruðu fimm mörk hvor. Ellefu leikmenn Kiel skoruðu tvö mörk eða fleiri í þessum leik.

Kiel fór á kostum frá fyrstu mínútu, komst í 11-2, 16-4 og var 20-8 yfir í hálfleik. Guðjón Valur var kominn með öll þrjú mörkin sín í hálfleik en öll mörk Arons komu í seinni hálfleiknum.

HSV Hamburg vann 35-31 útisigur á Gummersbach í hinum leik kvöldsins eftir að hafa verið 18-17 yfir í hálfleik. Íslenski Daninn Hans Lindberg var kominn með 9 mörk í hálfleik og endaði leikinn með 13 mörk og aðeins þrjú þeirra komu úr vítaköstum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×