Handbolti

Löwen með fullt hús stiga á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson átti flottan leik í kvöld.
Alexander Petersson átti flottan leik í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen unnu frábæran sigur á Flensburg, 30-27, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Alexander Petersson átti stórleik í liði Löwen og var markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk, ásamt Kim Ekdahl du Rietz. Arnór Atlason skoraði tvö mörk fyrir Flensburg.

Löwen hafði forystu, 13-12, í hálfleik og var svo skrefi framar allan seinni hálfleikinn þó svo að mjótt hafi verið á munum.

Nicklas Landin stóð í marki Löwen lengst af en undir lokin kom Goran Stojanovic inn og sá til þess að gestirnir frá Flensburg næðu ekki að ógna forystu Löwen.

Löwen hefur unnið alla sjö leiki sína á tímabilinu til þessa og er á toppnum ásamt Füchse Berlin, sem hefur spilað átta leiki. Kiel er svo í þriðja sætinu með ellefu stig af tólf mögulegum en öll þessi þrjú lið eru þjálfuð af Íslendingum.

Flensburg er í sjötta sætinu með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×