Handbolti

Róbert, Ásgeir og félagar í Parísarliðinu búnir að vinna tvo fyrstu leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Mynd/Vilhelm
Línumaðurinn Róbert Gunnarsson skoraði tvö mörk úr þremur skotum þegar Paris Handball vann 31-27 útisigur á Pays D'Aix UC HB í gær í 2. umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Paris Handball var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18-14.

Ásgeir Örn Hallgrímsson spilaði einnig með Paris Handball en náði ekki að nýta eitt af þremur skotum sínum. Frönsku landsliðshornamennirnir Samuel Honrubia og Luc Abalo voru markahæstir með sex mörk hvor en danska stórskyttan Mikkel Hansen lét sér nægja að skora 2 mörk.

Það vakti athygli að fyrirliðinn og varnartröllið Didier Dinart, sem fer sjaldnast yfir miðju, skoraði þrjú mörk fyrir Parísarliðið í þessum leik.

Paris Handball er búið að vinna fyrstu tvo leiki sína á tímabilinu en liðið vann 11 marka heimasigur á Cesson-Sévigné í fyrstu umferðinni. Íslensku strákarnir skoruðu sjö mörk úr tíu skotum í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×