Handbolti

Füchse Berlin tapaði fyrstu stigunum í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin tókst ekki að halda sigurgöngu sinni áfram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en Berlínarliðið gerði þá 27-27 jafntefli á heimavelli á móti á MT Melsungen. Füchse Berlin var búið að vinna fjóra fyrstu leiki sína á tímabilinu.

Fabian Wiede hjá Füchse Berlin skoraði lokamark leiksins tæpum tveimur mínútum fyrir leikslok en hvorugu liðinu tókst síðan að skora sigurmarkið á æsispennandi lokasekúndum leiksins.

Füchse Berlin náði frumkvæðinu strax í byrjun með því að skora þrjú fyrstu mörkin. Füchse var síðan 14-11 yfir eftir tæplega 25 mínútna leik en Melsungen skoraði þá fjögur mörk á rúmum tveimur mínútum og náði forystunni í leiknum. Melsungen var í framhaldinu með eins marks forystu í hálfleik, 16-15.

Melsungen náði tveggja marka forystu um miðjan seinni hálfleik en annars var jafnt á flestum tölum í seinni hálfleik. Melsungen var þó undan að skora en Füchse Berlin tókst að tryggja sér stig í lokin.

Konstantin Igropulo, eftirmaður Alexanders Petersson, skoraði 3 mörk fyrir Füchse Berlin í þessum leik en markahæstu menn liðsins voru þeir Ivan Nincevic og Denis Spoljaric með fjögur mörk hvor. Patrik Fahlgren var markahæstur hjá Melsungen með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×