Handbolti

Guðjón Valur lék bara seinni hálfleik en var samt markahæstur hjá Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/AFP
Kiel hélt áfram sigurgöngu sinni á HM félagsliða í handbolta með ellefu marka sigri á Asíumeisturum Mudhar Club frá Sádí-Arabíu, 42-31, en keppnin stendur nú yfir í Katar. Kiel vann alla þrjá leiki sína í riðlinum og spilar í undanúrslitunum á föstudaginn.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 8 mörk úr 9 skotum fyrir Kiel í þessum leik þrátt fyrir að spila bara seinni hálfleikinn og Aron Pálmarsson var með 2 mörk og 6 stoðsendingar. Aron fékk að spila í 56 mínútur.

Kiel lenti í smá erfiðleikum í byrjun og var 10-11 undir eftir 17 mínútur. Þá kom frábær þrettán mínútna kafli sem skilaði Kiel sex marka forskoti í hálfleik, 20-14.

Guðjón Valur skoraði tvö fyrstu mörk Kiel í seinni hálfleikinn og gaf tóninn fyrir sína frammistöðu. Guðjón endaði með átta mörk og sem markahæsti leikmaður Kiel en þeir Marko Vujin, Dominik Klein og Christian Sprenger skoruðu allir sex mörk. Tékkinn Filip Jicha var með 5 mörk og 10 stoðsendingar í leiknum

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, notaði Aron í öllum leiknum en þeir Daniel Narcisse og Momir Ilic voru báðir hvíldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×