Handbolti

Niclas Ekberg á leið til Alfreðs í Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niclas Ekberg (númer 10) fagnar sigri Svía í undanúrslitunum á ÓL.
Niclas Ekberg (númer 10) fagnar sigri Svía í undanúrslitunum á ÓL. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænski landsliðshornamaðurinn Niclas Ekberg er langt kominn með að ganga frá samningi við þýsku meistarana í THW Kiel en hann er eins og aðrir fyrrum leikmenn danska liðsins AG Kaupmannahafnar að leita sér að nýju félagi eftir að AG fór á hausinn.

Niclas Ekberg var í stóru hlutverki með AG síðasta vetur og varð síðan markakóngur á Ólympíuleikunum í London þar sem Svíarnir unnu silfurverðlaun. Einn af styrkleikum Ekberg er frábær vítanýting en hann skoraði úr 17 af 21 víti sínum á ÓL í London. Ekberg skoraði alls 50 mörk á leikunum eða 6,3 að meðaltali í leik.

„Ég vil verða besti handboltamaður heims og það er því góð byrjun að fara í besta handboltalið í heimi," sagði Niclas Ekberg við sænsku sjónvarpsstöðina TV4 Sport.

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var þegar búinn að fá til sín íslenska landsliðsmanninn Guðjón Val Sigurðsson en Guðjón Valur og Ekberg eru í hópi bestu hraðaupphlaupsmanna heims. Það má því búast við mörgum hraðaupphlaupsmörkum hjá Kiel í vetur. Rene Toft Hansen sem lék með AG í vetur er einnig búinn að semja við Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×