Handbolti

Guðmundur: Mjög erfitt að velja hópinn

"Það var gríðarlega erfitt að velja hópinn og ekki síður erfitt að tjá þeim leikmönnum sem ekki fara með frá ákvörðun minni," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, en hann tilkynnti í morgun hvaða 15 leikmenn hann tekur með sér á ÓL í London.

"Ég nýtti mér allan þann tíma sem ég gat til þess að velja hópinn enda valið erfitt. Þeir leikmenn sem ekki fara með fengu að vita það í gærkvöldi en hópnum var svo tilkynnt um valið í morgun."

Bæði Guðjón Valur Sigurðsson og Ingimundur Ingimundarson eru í hópnum þó svo þeir séu búnir að vera meiddir.

"Ingimundur er byrjaður að æfa með okkur á fullu og það gengur vel. Það á allt að verða í lagi með hann. Guðjón Valur er ekki farinn að æfa af fullum krafti en við erum bjartsýnir á að það verði í lagi með hann," sagði landsliðsþjálfarinn.

Þeir leikmenn sem þurfa að sitja eftir heima munu engu að síður æfa áfram með liðinu þar til það fer út.

Nánar verður rætt við Guðmund í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×