Handbolti

Stærstu styrktaraðilar AG Kaupmannahafnar standa við gerða samninga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn AG fagna enn einum bikarnum á síðustu leiktíð.
Leikmenn AG fagna enn einum bikarnum á síðustu leiktíð. Mynd / Heimasíða AG
Fjárhagsstaða danska meistaraliðsins AG Kaupmannahafnar hefur verið mikið til umræðu undanfarnar daga og vikur. Brotthvarf eigandans Jesper Nielsen vakti mikla athygli og ekki síður ummæli Sören Colding, íþróttastjóra félagsins, í samtali við Jyllands-Posten þess efnis að styrktaraðilar væru hættir að standa við gerða samninga.

Samkvæmt frétt danska fjölmiðilsins Ritzau ætla stærstu styrktaraðilar AGK þó að standa við gerða samninga.

„Skilningur milli okkar og AGK er frábær og við munum standa við gerða samninga og meira til," segir Sören Schriver framkvæmdastjóri Hummel í samtali við Ritzau.

Fréttamaður Ritzau hafði samband við fjóra af fimm stærstu styrktaraðilum AGK, Det Faglige Hus, Borup Kemi, Krifa auk Hummel, og segjast þeir allir ætla að standa við gerða samninga. Skoðanir þeirra virðast þó nokkuð skiptar.

Johnny Nim, framkvæmdastjóri hjá Det Faglige Hus, skilur vel þá styrktaraðila sem ákveðið hafa að standa ekki skil á greiðslum sínum.

„Það er eðlilegt að viðbrögðin séu á þessa leið. Maður borgar jú ekki ef maður fær ekki vöruna. En auðvitað væru best ef allir stæðu skil," er haft eftir Nim og greinilegt að honum finnst fyrirtækið að einhverju leyti svikið eftir brotthvarf Nielsen sem var andlit félagsins út á við.

Forsvarsmenn Hummel eru hins vegar á allt annarri skoðun en Nim.

„Það er algjörlega ósanngjarnt gagnvart félaginu og sérstaklega leikmönnum þess. Maður á að standa við skuldbindingar sínar," er haft eftir Schriver hjá Hummel.

Markaðsráðgjafinn Thomas Badura hjá ráðgjafarfyrirtækinu Sponsorpeople segir að fyrirtækin þurfi að hugsa sig tvisvar um hvort AGK sé rétti staðurinn fyrir peninga þess.

„Í íþróttalífinu hefur vörumerkið AGK staðið sig vel, liðið hefur nokkra góða leikmenn og hefur náð góðum úrslitum," er haft eftir Badura.

„Vandamálið er hins vegar það að Jesper Nielsen hefur verið andlit félagsins út á við og þegar það eru komnar rispur í plötuna er ekki hægt að útiloka að það hafi áhrif á spilun hennar, þ.e. vörumerkið AGK," segir Badura.


Tengdar fréttir

Jesper Nielsen hættur hjá AGK | Félagið komið í sölu

Jesper Nielsen, eigandi danska handknattleiksfélagsins AG Kaupmannahafnar, er hættur sem stjórnarformaður félagsins. Þá hefur hann auk fjölskyldu sinnar sett ráðandi eignarhlut sinn í félaginu í sölu. Ekstrabladet greinir frá þessu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×