Handbolti

Rúnar hugsanlega með slitið krossband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar í landsleik í janúar.
Rúnar í landsleik í janúar. mynd/vilhelm
Landsliðsmaðurinn Rúnar Kárason meiddist illa á landsliðsæfingu í kvöld. Hann verður klárlega ekki með gegn Hollandi um næstu helgi og svo gæti farið að hann verði frá næstu mánuðina.

"Ég lenti mjög illa eftir að hafa tekið skot. Þetta eru mjög alvarlegir áverkar segir Binni læknir. Það gæti verið að krossbandið sé farið. Þetta var í það minnsta drulluvont," sagði Rúnar við Vísi í kvöld.

Það kemur ekki í ljós fyrr en á morgun hversu alvarleg meiðsli Rúnars eru.

"Ég ligg með fótinn hátt uppi núna og vona það besta þó svo þetta líti illa út. Ég er að reyna að búa mig undir tíðindin. Ég býst við því að ég verði frá í þrjá mánuði ef ég fæ góð tíðindi. Ef ég fæ slæm tíðindi verð ég frá í sex til níu mánuði," sagði Rúnar.

Þessi meiðsli eru mikið áfall fyrir hinn unga Rúnar sem er nýbúinn að semja við þýska úrvalsdeildarfélagið Grosswallstadt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×