Handbolti

Hrafnhildur Skúla: Ég brosi hringinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Stefán
„Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenska kvennahandbolta. Algjörlega stórkostlegar," segir Hrafnhildur Skúladóttir fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Í hádeginu bárust þau tíðindi að Ísland fengi síðasta lausa sætið á Evrópumótinu sem upphaflega átti að halda í Hollandi en mun fara fram í Serbíu.

Íslenska liðið tapaði lokaleik sínum í undankeppninni ytra gegn Úkraínu 3. júní síðastliðinn. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um sæti á Evrópumótinu.

„Um leið og við lentum í Keflavík eftir Úkraínuleikinn sagði Einar mér að Hollendingar væru hættir við að halda keppnina. Þá rauk ég í tölvuna um leið og sá að við vorum með bestan árangur í þriðja sætinu. Þetta er stórkostlegt," segir Hrafnhildur.

Hollendingar áttu upphaflega að halda mótið en gáfu það frá sér sem fyrr segir. Undanfarnar tvær vikur hefur mótanefnd Evrópska handknattleikssambandsins unnið að því að finna nýjan gestgjafa. Í dag var gefið út að Serbía myndi halda mótið en Serbar voru einnig gestgjafar á Evrópumóti karlalandsliða í janúar síðastliðnum.

Þetta er þriðja stórmótið í röð sem íslenska kvennalandsliðið verður meðal þátttökuþjóða þótt óhefðbundnari leið hafi verið farin í þetta skiptið.

„Við erum að verða fastagestir á stórmótunum," segir Hrafnhildur sem var vægast sagt kát með tíðindin.


Tengdar fréttir

Stelpurnar okkar fara á EM eftir allt saman

Evrópska handknattleikssambandið, EHF, staðfesti í dag að Ísland myndi taka sæti Hollands í lokakeppni EM í handbolta í desember. Einnig hefur verið ákveðið að mótið fari fram í Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×