Handbolti

Fjórir íslenskir handboltamenn geta orðið danskir meistarar i dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fjórir íslenskir handboltamenn geta orðið danskir meistarar í dag þegar AG Kaupmannahöfn tekur á móti Bjerringbro-Silkeborg í Boxen-höllinni í Kaupmannahöfn í seinni leik liðanna í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn.

Það er mikill áhugi fyrir leiknum en 11 þúsund miðar seldust á skömmum tíma og það er fyrir löngu orðið uppselt á leikinn. AGK-liðið er gríðarlega vinsælt í Danmörku og það búast allir við sigurhátíð í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma (21.00 í Danmörku).

AGK vann fyrri leikinn 30-19 og á titilinn vísan. Liðið var mjög nálægt því að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um síðustu helgi og vann danska bikarinn fyrr á þessu tímabili.

Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason geta orðið danskir meistarar annað árið í röð og Arnór á möguleika á að verða danskur meistari í þriðja sinn á ferlinum.

Ólafur Stefánsson verður með sigri meistari í fjórða landinu en hann hefur áður unnið Íslandsmeistaratitilinn með Val, Þýskalandsmeistaratitilinn með Magdeburg og Spánarmeistaratitilinn með Ciudad Real.

Fjórði íslenski leikmaður AG-liðsins er síðan Guðjón Valur Sigurðsson sem getur hvatt AG með því að hjálpa liðinu að vinna danska titilinn en hann er á leiðinni til þýsku meistarana í Kiel. Guðjón Valur getur jafnframt orðið meistari í fyrsta sinn á ferlinum en hann hefur hvorki unnið Íslands- eða Þýskalandsmeistaratitilinn á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×