Handbolti

Alfreð: Aron gat ekki gengið eftir forkeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron í leik með íslenska landsliðinu.
Aron í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, segir að Aron Pálmarsson hafi ekki enn jafnað sig á meiðslum sem hann varð fyrir með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu. Þau hafi versnað þegar hann spilaði með landsliðinu í forkeppni Ólympíuleikanna um páskana.

Aron var eini leikmaður Kiel á sjúkralistanum í kvöld en þá vann liðið sigur á Göppingen. Kiel hefur unnið alla 28 leiki sína á tímabilinu og virðist fátt geta stöðvað liðið.

„Aron hefur verið í vandræðum með liðband í hné síðan á EM í janúar," sagði Alfreð við þýska fjölmiðla eftir leikinn í kvöld. „Við höfum hugsað mjög vel um hann en þá komu þessi forkeppni fyrir ÓL með íslenska landsliðinu," bætti hann við en Aron spilaði ekkert í lokaleik Íslands í forkeppninni, gegn Króatíu.

„Þá spilaði hann þrjá leiki á einni viku og var í það slæmu ástandi þegar hann kom til baka að hann gat ekki gengið. Hann er í endurhæfingu á hverjum degi og við vonum að hann geti spilað með okkur í Zagreb á laugardaginn. En svona er ástandið hjá okkur í þessari íþrótt - álagið er meira að segja of mikið fyrir ungan leikmann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×