Erlent

Sykurneysla að fara með Bandaríkjamenn í gröfina

Í fréttaþættinum 60 Minutes á CBS sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi var fjallað um það að sykurneysla væri að fara með Bandaríkjamenn í gröfina.

Í þættinum kom fram að hver Bandaríkjamaður neytir að meðaltali rúmlega 59 kílóa af unnum sykri á hverju ári. Rætt var við Robert Lustig doktor í læknisfræðum við Kaliforníuháskólann en sérgrein hans er að fást við offitu barna. Lustig segir að hin gífurlega sykurneysla Bandaríkjamanna sé að leggja þjóðina að velli.

Fram kemur í máli hans að sykurneysla sem slík valdi ekki aðeins offitu heldur megi m.a. rekja annars stigs sykursýki og hjartasjúkdóma beint til hennar. Lustig nefnir sem dæmi að þegar lifrin þarf að vinna úr miklu magni af sykri breytir hún hluta hans í litla fituklumpa sem síðan stífla æðakerfið.

Lustig vill að sykur sé meðhöndlaður sem álíka heilsufjandi og áfengi og tóbak.

Íslendingar eru þekktir fyrir mikla sykurneyslu á síðustu árum og eiga raunar Norðurlandamet í þeim efnum. Íslendingar neyta að meðaltali um 48 kílóa af unnum sykri á mann á ári. Til samanburðar neyta Norðmenn rúmlega 32 kílóa af sykri en þeir eru neyslugrennstir Norðurlandaþjóða í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×