Handbolti

Öruggt hjá Berlin | Tap hjá Rúnari og Kára

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson.
Lið Dags Sigurðssonar, Füchse Berlin, styrkti í dag stöðu sína í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik með afar öruggum sigri á Hildesheim. Füchse er nú með þriggja stiga forskot á Flensburg sem er í þriðja sæti en er samt átta stigum á eftir toppliði Kiel sem er búið að vinna alla leiki sína í deildinni í vetur.

Alexander Petersson lék ekki með Berlin í dag vegna meiðsla. Sven Sören Christophersen var markahæstur í liði Berlin með níu mörk.

Rúnar Kárason og félagar í Bergischer misstu af tækifæri til þess að ná í stig á heimavelli er Melsungen kom í heimsókn. Bergischer er því enn í fallsæti í deildinni. Rúnar stóð sig samt vel og skoraði sex mörk fyrir sitt lið.

Lið Kára Kristjáns Kristjánssonar, Wetzlar, tapaði síðan gegn Balingen og er því ekki enn laust við falldrauginn. Kári hafði óvenju hljótt um sig í dag og skoraði aðeins tvö mörk.

Úrslit dagsins:

Füchse Berlin-Hildesheim  36-18

Balingen-Wetzlar  28-25

Bergischer-Melsungen  25-27




Fleiri fréttir

Sjá meira


×