Handbolti

Ólafur Gústafsson: Stoltur að hafa spilað fyrir landsliðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur og Sigurgeir Árni eru hér að verjast þýska liðinu í kvöld.
Ólafur og Sigurgeir Árni eru hér að verjast þýska liðinu í kvöld. nordic photos/bongarts
FH-ingurinn Ólafur Gústafsson lék sinn fyrsta alvöru landsleik í kvöld og var markahæsti leikmaður íslenska liðsins sem tapaði, 33-22, fyrir Þýskalandi í Mannheim.

"Það er auðvitað jákvætt að vera búinn að spila sinn fyrsta landsleik en auðvitað hefði verið skemmtilegra að hanga betur í þeim í síðari hálfleik," sagði Ólafur við Vísi eftir leikinn en íslenska liðið gat ekkert í seinni hálfleik.

"Við vorum fínir í fyrri hálfleik en gáfum boltann svolítið frá okkur. Í seinni hálfleik breyttu þeir um vörn og settu Gensheimer framar og við réðum illa við það. Vörnin gaf líka eftir hjá okkur."

Ólafur skoraði fimm mörk í leiknum en þurfti reyndar þrettán skottilraunir til þess að ná þeim mörkum.

"Það var frábært að spila hérna en hefði kannski mátt vera meiri stemning í liðinu á pöllunum. Ég er aðallega stoltur af hafa náð þessum áfanga sem flestir stefna að ná ef þeir á annað borð eru í þessu af alvöru.

"Þetta var frábært tækifæri og vonandi náði maður að sanna sig eitthvað. Auðvitað hefði ég getað nýtt skotin betur og svo einhverjar sendingar sem klúðruðust.

"Kannski er þetta eini leikurinn sem ég fæ og því gaf ég bara allt sem ég átti í leikinn. Ég er nokkuð sáttur við sjálfan mig. Það verða vonandi fleiri landsleikir síðar," sagði Ólafur Gústafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×