Handbolti

Hinn 43 ára gamli Peter Gentzel ætlar ekki að segja nei við AG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Gentzel átti erfitt með sig þegar hann kvaddi Kiel á sínum tíma.
Peter Gentzel átti erfitt með sig þegar hann kvaddi Kiel á sínum tíma. Mynd/Nordic Photos/Getty
Forráðamenn Íslendingaliðsins AG frá Kaupmannahöfn leita nú að markverði eftir að Norðmaðurinn Steinar Ege sleit hásin um helgina. Einn af þeim nöfnum sem hafa komið upp á borðið er hinn 43 ára gamli sænski markvörður Peter Gentzel.

Kasper Hvidt er aðalmarkvörður AG en það lítur eiginlega út fyrir að það sé aldurstakmark til að klæðast markvarðartreyju AG því Hvidt er 35 ára og Ege verður fertugur í apríl. Þeir sem koma nefnilega til greina eru Gentzel og hinn 39 ára gamli Peter Henriksen sem varð Evrópumeistari með Dönum árið 2008.

„Ég mun ekki segja nei við þessu. Ég er ekki í sama leikformi og ég var en þetta á alveg að ganga upp," sagði Peter Gentzel, sem lék síðast með THW Kiel og lagði skóna á hilluna vorið 2010. Hann er nú yfirmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

„Það er skrýtið að velta því fyrir sér að ég gæti verið að hjálpa til við að vinna Sävehof í Meistaradeildinni eftir nokkrar vikur. Þetta er hálf súrrealískt," sagði Gentzel við Göteborgs-Posten.

„Ég þarf að fara til Malmö seinna í vikunni og það getur vel verið að ég detti inn á nokkrar æfingar hjá AG," sagði Gentzel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×