Handbolti

Alfreð einn af þeim sem vilja fá Danann Rasmus Lauge

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Lauge.
Rasmus Lauge. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rasmus Lauge er einn eftirsóttasti ungi handboltamaðurinn í heiminum í dag eftir frábæra frammistöðu sína með danska landsliðinu á Evrópumótinu í Serbíu í janúar.

Rasmus Lauge, sem er 20 ára leikstjórnandi hjá Bjerringbro-Silkeborg, var með 18 mörk og 11 stoðsendingar með danska landsliðinu á EM. Hann átti sinn allra besta leik í undanúrslitunum á móti Spáni þar sem hann skoraði 6 mörk úr 9 skotum og var kosinn besti maður leiksins.

Einn af þeim sem vill fá strákinn til sín er Alfreð Gíslason þjálfari þýska stórliðsins Kiel. Umboðsmaður Rasmus Lauge hefur tjáð sig um áhuga margra stórliða á sínum leikmanni en auk Kiel eru er talað um að lið eins og AG Kaupmannahöfn, Atletico Madrid, Barcelona og Hamburg séu einnig mjög áhugasöm.

„Kiel hefur áhuga á Rasmus og hefur verið það í langan tíma. Ég hef talað við þá mörgum sinnum," sagði Christian Henriksen, umboðsmaður Rasmus Lauge við BT-blaðið.

„Það eru mörg félög að spyrja um hann og það er mikill áhuga á honum. Allir stærstu klúbbarnir vilja fá hann," sagði Henriksen.

Rasmus Lauge á eftir tvö ár af samningi sínum við Bjerringbro-Silkeborg en hann rennur ekki út fyrr en sumarið 2014. Danska félagið segist ekki ætla að leyfa Rasmus Lauge að fara fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×