Handbolti

Sjötti heimasigur Rhein-Neckar Löwen í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson notaði Róbert Gunnarsson ekkert í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson notaði Róbert Gunnarsson ekkert í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen héldu sigurgöngu sinni áfram á heimavelli í kvöld þegar liðið vann þriggja marka sigur á Björgvini Pál Gústavssyni og félögum í SC Magdeburg, 30-27, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Löwen styrkti stöðu sína í fimmta sætinu með þessum sigri sem var sá sjötti í röð í SAP Arena.

Björgvin Páll Gústavsson var í byrjunarliði Magdeburg og spilaði fyrstu 22 mínútur leiksins. Hann náði aðeins að verja 2 af 14 skotum og var kallaður á bekkinn. Róbert Gunnarsson fékk ekkert að spreyta sig í liði Rhein-Neckar Löwen.

Uwe Gensheimer skoraði 8 mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen og Michael Müller var með 6 mörk. Yves Grafenhorst var markahæstur hjá Magdeburg með 6 mörk.

Rhein-Neckar Löwen var skrefinu á undan frá upphafi leiks, komst í 2-0, 3-1 og 12-7 en Löwen-liðið var síðan þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11. Bjarte Myrhol skoraði fimm mörk í fyrri hálfleiknum.

Magdeburg byrjaði seinni hálfleikinn og náði að jafna metin í 17-17 með því að vinna fyrstu 7 mínútur hálfleiksins 6-3. Löwen svaraði með því að skora 6 mörk gegn einu á fimm mínútum og komast í 23-18. Rhein-Neckar Löwen var með leikinn í öruggum höndum eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×