Viðskipti innlent

Óheimilt að miða við íslensku vextina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óheimilt var að endurreikna lán miðað við íslenska verðtryggða seðlabankavexti hjá þeim sem greiddu fullnaðargreiðslur af lánum sínum áður en gengisdómur Hæstaréttar féll sumarið 2010. Hæstiréttur Íslands komst að þessari niðurstöðu í máli gegn Frjálsa fjárfestingabankanum í dag.

Eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp árið 2010 varð sú niðurstaða að miðað skuli við lægstu verðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands. Bankarnir gerðu ráð fyrir því að þá vexti mætti miða við upphaf samningstíma lána. Hæstiréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þeir sem hafi staðið skil á lánum sínum samkvæmt umræddum samningum teljist hafa greitt þær greiðslur til fulls og því skuli þeir ekki greiða vexti af þeim samkvæmt íslenskum reglum.

Erlendu vextirnir voru mun lægri en íslensku vextirnir og því kann þessi niðurstaða að verða nokkuð högg fyrir íslenska bankakerfið.

Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni en fjórir dómarar töldu að Frjálsi fjárfestingabankinn hefði ekki mátt miða við íslenska vexti frá upphafi. Þrír dómarar töldu að það hefði mátt miða við íslenska vexti. Afar sjaldgæft er að Hæstiréttur sé skipaður sjö dómurum eins og í þessu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×