Handbolti

Jónas: Hárrétt að sleppa vítinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Elíasson, alþjóðadómari í handbolta, segir að það sé enginn vafi á því að það hafi verið rétt ákvörðun að dæma ekki víti á Vigni Svavarsson í leik Íslands og Noregs á miðvikudagskvöldið.

Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um atvikið í norskum fjölmiðlum enda voru leikmenn, þjálfarar og jafnvel sjónvarpsmenn trítilóðir af bræði vegna málsins eins og sagt hefur verið frá.

Jónas segir að danska dómaraparið sem dæmdi leikinn hafi farið eftir settum reglum.

„Ég er búinn að ræða þetta við marga kollega mína og það er rétt að dæma ekki víti vegna þess að hann fær frítt skot," sagði Jónas en viðtalið má sjá við hann hér fyrir ofan.

„Vignir er vissulega með aðra löppina inn í teig. Ef Bjarte Myrhol hefði látið sig vaða beint á Vigni þá hefði hann væntanlega fengið víti en hann tekur þá ákvörðun að snúa sér til hliðar og skjót að marki. Hann er svo bara í það litlu jafnvægi að hann reynir að taka smá Robba á þetta en gengur ekki betur en svo. Hann þarf greinilega að læra eitthvað af Robba," sagði Jónas en þeir Myrhol og Róbert Gunnarsson eru samherjar hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen.

Sjálfur segir Róbert að honum sé alveg sama um kvartanir Norðmanna. „Það auðveldasta í þessari stöðu er að kenna einhverjum öðrum um. Ef þeir gera það - þá gera þeir það bara," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×