Handbolti

Leik lokið: Króatía - Noregur 26-20 | Ísland áfram í milliriðla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
mynd/vilhelm
Strákarnir okkar munu spila þrjá leiki til viðbótar á EM í Serbíu, hið minnsta. Þetta varð ljóst eftir að Króatar höfðu betur gegn Norðmönnum í lokaleik D-riðils í kvöld.

Ísland fer þó áfram í milliriðlakeppnina án stiga þar sem eina liðið sem strákarnir okkar unnu í riðlinum - Noregur - féll úr leik með tapinu í kvöld.

Slóvenar léku sér að því að tapa með Íslandi með aðeins tveggja marka mun fyrr í kvöld en þeir leyfðu Íslendingum að skora tvívegis á lokamínútunni.

Það gerðu þeir á kostnað Norðmanna því Slóvenar geta nú tekið með sér stigin tvö sem þeir unnu sér inn gegn Íslandi í kvöld.

Ástæðan fyrir því að Slóvenía, Ísland og Noregur luku öll keppni með tvö stig í riðlinum og réðist það því á markatölu í innbyrðisviðureignum liðanna hvaða tvö lið komust áfram.

Slóvenía var með eitt mark í plús, Ísland með jafna markatölu en Noregur eitt í mínus (í innbyrðisleikjum þessara þriggja liða). Þar sem lið taka með sér stigin í milliriðla sem þeir unnu gegn öðrum liðum sem komust áfram var það hagnaður Slóvena að árangur Íslands væri betri en Norðmanna.

Noregur þurfti á stigi að halda gegn Króatíu í kvöld en þeir náðu sér aldrei almennilega á strik þrátt fyrir glæsilega frammistöðu Ole Erevik í markinu. Vörn og markvarsla Króata var einfaldlega of sterk fyrir þá enda skoruðu Norðmenn aðeins 20 mörk í leiknum.

Norðmönnum finnst vitaskuld á sér brotið enda halda þeir nú heim á leið eftir hreinan martraðadag á Evrópumeistaramótinu í Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×