Handbolti

Íslenska liðið lék sama leik og Slóvenar á HM 2007

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir fagna hér sigrinum á Frökkum á HM 2007.
Strákarnir fagna hér sigrinum á Frökkum á HM 2007. Mynd/AFP
Íslenska handboltalandsliðið lék sama leik og Slóvenar gerðu í kvöld þegar strákarnir okkar mættu Frökkum í lokaleik riðlakeppninni á HM í Þýskalandi 2007. Slóvenar gáfu íslenska liðinu tvö mörk í lokin til þess að sjá til þess að þeir tækju stigin úr leiknum með sér inn í milliriðlinn.

Íslenska liðið var í svipaðri stöðu og Slóvenar á HM fyrir fimm árum. Íslenska liðið varð þá að vinna Frakka í lokaleiknum sínum til þess að komast áfram þar sem að liðið hafði tapað á móti Úkraínu í leiknum á undan.

Íslenska byrjaði leikinn frábærlega, komst í 5-0, 15-6 og var 18-8 yfir í hálfleik. Þegar íslenska liðið var komið 11 mörkum yfir, 21-10, í byrjun seinni hálfleiks fóru menn að átta sig á því að þeir mættu ekki vinna með of stórum mun.

Ef íslenska liðið hefði unnið Frakka með of miklum mun þá hefðu Frakkarnir setið eftir, Úkraínumenn farið áfram og íslenska liðið því farið stigalaust inn í milliriðlinn. Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, gaf þá mönnum skipanir um að gefa Frökkum nokkur mörk.

Strákarnir sem voru í rosalegum ham í þessum leik, unnu því "bara" með átta marka mun, 32-24. Ísland og Frakkland fóru því áfram og íslensku strákarnir voru með tvö stig í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×