Handbolti

Strákarnir mæta sjóðheitu liði Ungverja á sunndaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Íslenska handboltalandsliðið komst áfram í milliriðil á EM í handbolta í Serbíu í kvöld þrátt fyrir tap á móti Slóveníu. Króatar og Slóvenar hjálpuðu strákunum upp úr riðlinum, Króatar með því að vinna Norðmenn í lokaleik riðilsins og Slóvenar með því að gefa íslenska liðinu tvö mörk í lok leik liðanna í dag sem Slóvenar unnu 34-32.

Íslensku strákarnir spila sinn fyrsta leik í milliriðlinum á móti Ungverjum á sunnudaginn en það er ekki enn kominn tímasetning á leikinn þó að það stefni allt í það að leikurinn hefjist klukkan fimm að íslenskum tíma.

Íslenska liðið fer ekki með neitt stig með sér upp úr riðlinum en Heims-, Evrópu- og Ólympíumeistarar Frakka eru í sömu stöðu eftir óvænt tap á móti Ungverjum í gær. Danir eru líka án stiga þegar keppni í milliriðli eitt hefst í dag og það er óhætt að segja að það hafi verið nóg af óvæntum úrslitum í Serbíu.

Ísland mætir eins og áður sagði sjóðheitum Ungverjum í fyrsta leik. Ungverjar hafa komið mjög á óvart í keppninni en þeir hafa ekki enn tapað leik. Ungverska liðið hafi gert jafntefli við Rússa og Spánverja áður en kom að leiknum við Frakka í gær.

Íslenska liðið spilar síðan við Spánverja á þriðjudaginn og mætir síðan Frökkum á miðvikudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×