Handbolti

Forseti EHF: Kemur til greina að breyta fyrirkomulaginu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Tor Lian, forseti Handknattleikssambands Evrópu, segir í samtali við norska fjölmiðla í dag að til greina komi að breyta keppnisfyrirkomulaginu á EM í handbolta.

Lian er sjálfur Norðmaður en Noregur féll í gær úr leik á EM í Serbíu eftir að hafa tapað fyrir Króatíu.

Tapið hefði ekki komið að sök ef Slóvenía hefði unnið Ísland með minnst fjögurra marka mun fyrr um daginn. En Slóvenar léku sér að því að gefa Íslandi síðustu tvö mörk leiksins og unnu að lokum tveggja marka sigur, 34-32.

Erlend Mamelund sagði fyrirkomulagið galið. „Það er fáránlegt að fyrirkomulagið bjóði upp á að það sé betra að vinna með tveggja marka mun en sjö," sagði norska skyttan.

Lian sagði það koma vel til greina að breyta fyrirkomulaginu. „Við erum opnir fyrir því að gera breytingar. Breytingar eiga sér sífellt stað. Það eru margir sem hafa brugðist við því sem gerðist."

„Við munum skoða reglurnar og hvernig keppnisfyrirkomulagið er."

„En þetta var ekki svindl hjá Slóveníu. Það má svo ræða um hvort þetta hafi verið gott eða ekki gott."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×