Handbolti

Enginn Óli - enginn Snorri Steinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/DIENER
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska handboltalandsliðsins, tilkynnti EM-hóp sinn í gær og þá kom endanlega í ljós að Snorri Steinn Guðjónsson gefur ekki kost á sér af persónulegum ástæðum. Guðmundur fer með sautján menn út til Serbíu, þar á meðal nýliðana Ólaf Bjarka Ragnarsson og Rúnar Kárason.

Nú er það orðið ljóst að íslenska landsliðið verður án tveggja af leiðtogum sínum á Evrópumótinu í Serbíu.

Nú er það orðið ljóst að íslenska landsliðið verður án tveggja af leiðtogum sínum á Evrópumótinu í Serbíu. Það var fyrir löngu orðið ljóst að fyrirliðinn Ólafur Stefánsson yrði ekki með og í gær kom það endanlega í ljós að leikstjórnandinn Snorri Steinn Guðjónsson missir líka af mótinu.

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson og strákarnir í liðinu reyndu að horfa jákvætt fram á veginn í viðtölum í gær og stefna á það að standa sig án tveggja af bestu handboltamönnum landsins en það getur samt enginn falið það fyrir íslensku þjóðinni að missirinn er mikill.

Guðmundur ákvað að taka 17 menn út til Serbíu en 15 menn eru skráðir inn til að byrja með. Rúnar Kárason og Ólafur Bjarki Ragnarsson eru á leið á sitt fyrsta stórmót og þá voru þeir Oddur Gretarsson og Ólafur Guðmundsson í litlu hlutverki á eina stórmótinu sínu til þessa, Ólafur á EM 2010 og Oddur á HM í Svíþjóð í fyrra.

Gerði rétt með æfingahópinn

"Það eru mikil heilabrot sem fylgja vali á liðinu sem og í vali á æfingahópnum. Ég er ánægður með það hvernig til tókst með æfingahópinn því ég valdi stærri hóp núna og fleiri miðjumenn. Kannski hafði ég það í undirmeðvitundunni að þetta gæti farið svona með Snorra. Auðvitað söknum við hans því hann er frábær félagi og allt það en hann kemur til móts við liðið síðar. Þetta er bara ákvörðun sem hann tók og við virðum hana og það er ekkert meira um það að segja. Nú eru það bara aðrir sem fá stærri hlutverk í liðinu," segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.

"Sjálfsagt breytast væntingarnar til liðsins núna en það er annarra að dæma um það. Ég átta mig ekki alveg á því en þetta er að mörgu leyti töluvert breytt lið frá því á undanförnum árum. Það verður spennandi að sjá hvernig okkur reiðir af," segir Guðmundur.

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði liðsins, vildi ekki gera of mikið úr fjarveru Ólafs og Snorra Steins. "Þetta eru tveir frábærir leikmenn og það er aldrei gott að missa góða og reynslumikla menn út úr hópnum. Þetta felur í sér ákveðið tækifæri því nú verða aðrir leikmenn að taka ábyrgð. Íslensk hand

boltasaga hefur sýnt það að það fer aldrei sama lið á tvö stórmót í röð og það er bara gangur lífsins að það komi nýir menn inn," segir

fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson og liðið lét biðina eftir ákvörðun Snorra ekki trufla sig.

Tækifæra fyrir aðra

"Snorri Steinn var ekkert á svæðinu og það var ekkert að trufla okkur. Við undirbjuggum okkur með það lið sem við höfðum og það þýðir ekkert að fela sig á bak við einhverja menn sem vantar. Við þurfum að notast við það sem við höfum og byggja á því. Þetta eru tveir stórir póstar sem detta út en þetta er tækifæri fyrir aðra að sýna hvað þeir geta og sanna að þeir eigi heima í liðinu," segir Guðjón Valur.



Aron Pálmarsson og Arnór Atlason munu skipta með sér hlutverki Snorra Steins og má búast við því að Arnór byrji á miðjunni. Aron segir leikmenn liðsins vera búna að undirbúa sig fyrir þessar fréttir.

"Snorri er ekki með en við bjuggumst svo sem alveg við þessu enda er hann ekki búinn að vera með okkur síðustu tvær vikur. Auðvitað tekur maður fjölskylduna

fram yfir allt," sagði Aron Pálmarsson sem fær fyrir vikið enn stærra hlutverk í liðinu.

"Við byrjuðum flesta leikina í Danmörku með mig í skyttunni og Arnór inni á miðjunni. Ég og Arnór erum þannig leikmenn að við getum spilað báðar stöður og verðum mikið í því að skipta þessu á milli okkar. Það skiptir ekki máli hvor spilar hvar. Ég hef ekki áhyggjur af þessari stöðu þótt Snorri sé ekki með en auðvitað söknum við hans," segir Aron.



Ánægður að fá meiri ábyrgð

Aron fagnar meiri ábyrgð á sínar herðar. "Ég vissi að það yrði meiri ábyrgð á mér þó svo að Snorri hefði verið með. Ég er alltaf að þroskast sem leikmaður og er bara ánægður með að fá meiri ábyrgð," sagði Aron.

Nú er bara að vona að fleiri strákar í liðinu hugsi eins og Aron og fjarvera þeirra Ólafs og Snorra Steins muni á endanum hjálpa til að búa til reynslumeiri og sterkari leikmenn fyrir framtíðarverkefni strákanna okkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×