Handbolti

Guðjón Valur um fyrirliðabandið: Held áfram að vera sami leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/AFP
Guðjón Valur Sigurðsson hefur tekið við fyrirliðabandinu af Ólafi Stefánssyni og Evrópumótið í Serbíu verður fyrsta stórmótið þar sem Guðjón Valur er fyrirliði liðsins frá fyrsta leik. Íslenska liðið leikur sinn fyrsta leik á EM á móti Króatíu á morgun.

„Ég er búinn að vera fyrirliði liða í þýsku úrvalsdeildinni og ef það er eitthvað sem er í gangi og ég get hjálpað til þá geri ég það. Ég geri það hvort sem ég er með fyrirliðabandið á hendinni eða ekki," sagði Guðjón Valur um nýtt hlutverk.

„Ég fer ekki út með einhverjar svakalega byrðar á öxlunum að ég verði núna að gera þetta eða segja hitt. Ég held áfram að vera sá leikmaður og sú manneskja sem ég er. Að sjálfsögðu reynir maður að horfa meira á það hvort að maður geti hjálpað einstaka leikmönnum í vissum kringumstæðum í leikjum eða utan vallar. Þetta er ekki eitthvað sem þyngir mig um einhver kíló," sagði Guðjón Valur.

„Ég er hornamaður og veit um hlutverk mitt í þessu liði. Þó að ég sé orðinn fyrirliði þá breytist ekki hlutverk mitt innan vallar. Ég er ekki að öskra meira eða öskra hærra, hlaupa hraðar eða stökkva hærra. Ég held áfram að vera sá leikmaður sem ég er enda kannski fullseint að fara breyta einhverju núna á gamallsaldri," sagði Guðjón Valur en hann hefur áður verið fyrirliði íslenska liðsins á fjórum leikjum á EM (2006 og 2008) sem og á einum leik á HM í Svíþjóð í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×