Handbolti

Aron Rafn kallaður til Serbíu - Björgvin Páll veikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson með Birki Ívari Guðmundssyni, fyrrum landsliðsmarkverði.
Aron Rafn Eðvarðsson með Birki Ívari Guðmundssyni, fyrrum landsliðsmarkverði. Mynd/Valli
Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka og þriðja markvörður íslenska handboltalandsliðsins hefur verið kallaður út til Serbíu vegna veikinda aðalmarkvarðarins Björgvins Páls Gústavssonar. Björgvin Páll er kominn með hita og gæti misst af fyrsta leik Íslands á EM í Serbíu sem er á móti Króötum á morgun.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti við íþróttadeild að Björgvin Páll sé með hita og að sé því tæpur fyrir Króatíu-leikinn og samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá er Aron Rafn Eðvarðsson á leiðinni út til Serbíu.

Aron Rafn Eðvarðsson æfði með íslenska landsliðinu á undirbúningstímabilinu og fór með út á Danmerkurmótið þótt að hann hafi ekki verið á skýrslu í neinum leik. Aron Rafn á að baki tvo landsleiki en þeir voru vináttulandsleikir á móti Frökkum árið 2010.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var búinn að velja 17 manna hóp en tilkynnti bara fimmtán leikmenn inn og hélt einu sæti opnu. Hann getur því tekin Aron Rafn inn í liðið fyrir leikinn á móti Króötum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×