Handbolti

Danskur landsliðsmaður í einangrun á hótelinu og missir af fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lasse Svan Hansen.
Lasse Svan Hansen. Mynd/AFP
Danski landsliðsmaðurinn Lasse Svan Hansen verður ekki með Dönum á móti Slóvakíu í fyrsta leik þjóðanna á EM í Serbíu í dag. Hansen glímir við magakveisu og hefur verið settur í einangrun til þess að koma í veg fyrir að hann smiti hina í liðinu.

„Sven hefur verið settur í einangrun á hótelinu Hann hefur ekkert getað borðað í dag og hefur því ekki kraft til þess að spila leikinn á móti Slóvakíu," segir í fréttatilkynningu á heimasíðu danska handboltasambandsins.

Lasse Svan Hansen er 28 ára örvhentur hornamaður sem spilar með þýska liðinu SG Flensburg-Handewitt. Hann hefur skorað 148 mörk í 73 landsleikjum. Hansen lék á sínum tíma með Snorra Steini Guðjónssyni og Ásgeiri Erni Hallgrímssyni hjá danska félaginu GOG Svendborg.

Þessar fréttir þýða að mun meira reyna á hinn íslensk ættaða Hans Lindberg í þessum leik í kvöld sem hefst klukkan 19.15 að íslenskum tíma. Örvhentu skytturnar Kasper Søndergaard og Mads Christiansen gætu reyndar líka leyst Hans af í horninu.

Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, tilkynnti bara inn fimmtán leikmenn og því hefur hann bara fjórtán leikmenn í leiknum í kvöld.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×