Handbolti

Arnór: Ætlum okkur að ná árangri

Henry Birgir Gunnarsson í Serbíu skrifar
Mynd/Valli
Arnór Atlason verður í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu á EM og segist vera klár í bátana þó svo hann sé mjög slæmur í bakinu enda með brjósklos.

"Það er tilhlökkun að byrja þetta loksins. Við byrjum á alvöru leik gegn einu besta liði heims og það verður gaman," sagði Arnór en er ekki sérstakt að vera án Ólafs Stefánssonar og Snorra Steins Guðjónssonar?

"Auðvitað er það sérstakt. Það er samt ekki hægt að hugsa um það. Þeir eru ekki með og við verðum að taka því og einbeita okkur að því sem er að gerast hérna núna. Það kemur maður í manns stað og við teljum okkur vera með þrusulið. Við ætlum okkur að ná árangri á þessu móti. Það væri ákaflega gott að byrja á tveimur stigum gegn Króatíu. Það er fínt að byrja á þeim."

Arnór kvartar ekki yfir heilsunni og ætlar að gefa sig allan í verkefnið.

"Ég er fínn og kvarta ekki. Er að keyra af fullum krafti á æfingum og hef engar áhyggjur eins og staðan er og vil helst ekkert ræða þetta einu sinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×