Handbolti

Anton og Hlynur dæma hörkuleik á EM á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.
Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson. Mynd/Valli
Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson fá heldur betur alvöru verkefni á EM í handbolta á morgun þegar þeir munu dæma viðureign Makedóníu og Þýskalands í B-riðli.

Anton og Hlynur eru að dæma í fyrsta sinn á stórmóti karla en þeir dæmdu þó á EM kvenna í Makedóníu árið 2008.

Þjóðverjar eru í sárum eftir óvænt tap fyrir Tékkum í fyrstu umferð í gær og verða einfaldlega að vinna Makedóníu á morgun.

Makedóníumenn náðu góðu jafntefli við Svíþjóð í gær og munu því með sigri á morgun tryggja sér sæti í milliriðlakeppninni. Þeir eru gríðarlega vel studdir af fjölmörgum áhorfendum frá heimalandinu sem láta margir öllum illum látum á meðan leiknum stendur.

Það er því ljóst að þeir Anton og Hlynur munu hafa í nógu að snúast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×