Handbolti

Spánverjar unnu Heims- og Evrópumeistara Frakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánverjar byrja Evrópumótið í Serbíu frábærlega en Spánn vann þriggja marka sigur á Heims- og Evrópumeisturum Frakka, 29-26, í fyrsta leik liðanna á EM. Liðin eru í C-riðli keppninnar en liðin sem komast upp úr þeim riðli verða í milliriðli með liðunum úr riðli Íslands.

Alberto Entrerrios, Cristian Ugalde og Joan Canellas skoruðu allir fjögur mörk fyrir Spánverja en Jérôme Fernandez var markahæstur hjá Frökkum með 7 mörk. Thierry Omeyer varð aðeins 3 skot í marki Frakka og munaði um minna.

Spánverjar voru sterkari frá upphafi leiks, komust í 6-3, 8-5 og náðu mest fjögurra marka forskoti, 12-8, þegar tæpar níu mínútur voru til hálfleiks. Frakkar minnkuðu muninn í tvö mörk fyrir hálfleik, 13-15 og skoruðu síðan fyrsta mark seinni hálfleiksins.

Spánverjar gáfu ekkert eftir, svöruðu með því að skora 5 af næstu 6 mörkum og komast fimm mörkum yfir, 20-15. Frakkar svöruðu með þremur mörkum í röð og minnkuðu muninn í tvö mörk. Spánverjar náðu hinsvegar aftur fjögurra marka forskoti en önnur þrjú frönsku mörk í röð komu muninum niður í eitt mark, 27-26, þegar ein og hálf mínúta var eftir.

Spánverjar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og fögnuðu sigrinum gríðarlega í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×