Handbolti

Nánast engin upphitun í kvöld | Vanvirðing við leikmennina

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðmundur er ekki ánægður með fyrirkomulag mótsinsí Serbíu. Hann spjallar hér við annan dómara leiks Íslands og Króatíu í kvöld.
Guðmundur er ekki ánægður með fyrirkomulag mótsinsí Serbíu. Hann spjallar hér við annan dómara leiks Íslands og Króatíu í kvöld. mynd/vilhelm
Þjálfarar Íslands og Króatíu lýstu báðir yfir vanþóknun sinni á fyrirkomulagi mótsins hér í Serbíu en liðin fengu varla tíu mínútur til þess að hita upp fyrir leikinn.

"Ég er eiginlega sorgmæddur. Það er ótrúlegt að mönnum detti þetta í hug. Mér skilst að EHF hafi verið bent á þetta síðasta haust og þá var ekki hlustað. Við erum heppnir að hafa náð fimm mínútum í upphitun því leikurinn á undan hefði einnig getað dregist á langinn," sagði Guðmundur en Slavko Goluza, þjálfari Króatíu, tók í sama streng á blaðamannafundi eftir leikinn.

"Sú staða hefði getað komið upp að við hefðum fengið tvær mínútur til að hita upp. Það hefði líklega verið í fyrsta skipti í sögu handboltans sem lið fá tvær mínútur til þess að hita upp," sagði Guðmundur en enginn upphitunarhöll er í Millenium-höllinni í Vrsac.

"Það er allt í lagi að skokka kannski á einhverjum gangi í tíu mínútur. Síðan þurfa leikmenn að komast út á völlinn og hita upp axlirnar. Það þarf líka að hita markverðina og annað. Það er ekki hægt á þessum tíma," sagði Guðmundur og bætti við að það væri ekki alvarlegast.

"Þetta kallar á meiðslahættu og í raun vanvirðing við þessa heimsklassaleikmenn að bjóða upp á þetta. Við lendum aftur í þessu á miðvikudaginn. Ég veit ekki hvernig við tæklum þetta þá."

Fyrir utan hversu lítill tími er á milli leikja þá fór í taugarnar á þjálfurunum athöfnin sem er eftir leiki þar sem bestu leikmennirnir fá verðlaun.

"Það tók af okkur fimm mínútur í viðbót. Hvað á maður að segja? Ég er bara orðlaus yfir þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×