Handbolti

Ingimundur: Þarf að koma mér betur í gírinn fyrir næstu leiki

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Ingimundur á ferðinni í kvöld.
Ingimundur á ferðinni í kvöld. mynd/vilhelm
Varnartröllið Ingimundur Ingimundarson byrjaði á bekknum í kvöld en kom svo inn í slaginn. Hann hefur verið meiddur og af þeim sökum ekki tekið eins mikinn þátt í undirbúningnum og hann vildi.

"Ég er ekkert búinn að æfa með þeim og í gær æfði ég ekki taktískt með þeim. Ég var í séræfingum með Ella sjúkraþjálfara. Það var því ekkert óeðlilegt við að ég byrjaði á bekknum," sagði Ingimundur eftir leik en hvernig leið honum í leiknum?

"Eigum við ekki að segja að mér hafi liðið vel. Á meðan maður er í landsliðsbúningnum er ekkert hægt að pæla of mikið í því hvernig manni líður. Ef maður ýtir því ekki til hliðar og einbeitir sér að leiknum á maður ekki möguleika."

Ingimundur var ekki fullkomlega sáttur við sjálfan sig eftir leikinn.

"Ég hefði viljað taka meira á þeim í kvöld. Ég hef átt betri leiki. Ég þarf að koma mér aðeins betur í gírinn fyrir næstu tvo leiki. Ég stefni á að verða klár.

"Það er hellingur eftir af þessu móti og margt jákvætt hjá okkur í kvöld og við tökum það með okkur inn í næsta leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×