Handbolti

Þjálfari Króata: Ísland mun hættulegra lið án Ólafs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Slavko Goluza, þjálfari króatíska landsliðsins.
Slavko Goluza, þjálfari króatíska landsliðsins. Mynd/Vilhelm
Slavko Goluza, landsliðsþjálfari Króatíu, segir að það hafi verið erfitt að stöðva íslenska liðið í gær og að það hefði ekki saknað Ólafs Stefánssonar.

Króatía vann Ísland, 31-29, eftir að hafa siglt fram úr á lokamínútum leiksins. Ísland var þó skrefi framar lengst af í jöfnum leik.

„Ég vil óska leikmönnum mínum til hamingju. Þeir gerðu allt sem ætlast var til þeirra í undirbúningnum fyrir leikinn," sagði Goluza á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

„Ísland sannaði að þeir eru mun hættulegra lið án Ólafs Stefánssonar," bætti hann við en ummælin þykja sannarlega furðuleg enda hefur Ólafur verið einn allra besti handboltamaður heims síðustu ár, bæði með félagsliðum sínum og íslenska landsliðinu.

„Það var erfitt að stöðva íslenska liðið. Við brenndum af nokkrum skotum en andstæðingar okkar lentu í vandræðum með varnarleikinn okkar. Leikmenn voru taugaóstyrkir í upphafi leiks enda tvö mikilvæg stig í húfi."

„Við spiluðum ekki vel en það var vegna þess að við vorum að spila við mjög sterkan andstæðing."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×