Handbolti

Þjálfari Þjóðverja vill engar óþarfa kúnstir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Heuberger, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Martin Heuberger, landsliðsþjálfari Þýskalands. Nordic Photos / Getty Images
Martin Heuberger, landsliðsþjálfari Þýskalands, hefur fyrirskipað leikmönnum sínum að vera ekki með neinar óþarfa kúnstir í leiknum mikilvæga gegn Makedóníu í kvöld.

Leikurinn skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þýska liðið sem er að berjast um að komast í hóp þeirra liða sem fá að taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna í apríl næstkomandi. Ísland tryggði sér þann þátttökurétt á HM í Svíþjóð í fyrra.

Þýskaland tapaði óvænt fyrir Tékklandi í fyrstu umferðinni á sunnudaginn og því kemur ekkert annað en sigur til greina í kvöld. Makedóníumenn sýndu þó að þeir eru með sterkt lið með því að ná jafntefli við Svíþjóð.

„Ég vil enga snúninga eða vippur. Tékkarnir hoppuðu með boltann nánast inn í markið - það gerðum við ekki," sagði Heuberger.

Varnartröllið Oliver Roggisch tekur undir það. „Við getum ekki leyft okkur að spila neinn sýningarhandbolta. Það verður ekki aðalmálið að skemmta áhorfendum."

Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson munu dæma leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×