Handbolti

Ólafur Bjarki: Er klár ef kallið kemur

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Ólafur Bjarki.
Ólafur Bjarki. mynd/vilhelm
Nýliðinn Ólafur Bjarki Ragnarsson var í fyrsta skipti í hóp með landsliðinu á stórmóti er Ísland mætti Króatíu á mánudag. Ólafur Bjarki kom reyndar ekki við sögu í leiknum.

„Þetta var ótrúlega gaman. Það er alveg nýtt fyrir mig að vera með strákunum á stórmóti. Ég lifði mig vel inn í leikinn á bekknum. Það var samt stress í upphafi en ekkert til að tala um," sagði HK-ingurinn en hann segist vera meira en klár ef kallið kemur.

„Auðvitað er maður klár. Við erum búnir að æfa vel og ég þekki öll leikkerfin. Ef ég þarf svo að henda mér út í djúpu laugina þá geri ég það með ánægju."

Ólafur Bjarki viðurkennir að það sé ekki alveg allt eins og hann bjóst við á þessu móti.

„Í hreinskilnig sagt átti ég von á því að þetta yrði verra. Þetta er fínt. Ekkert hægt að kvarta yfir matnum og hótelinu," sagði Ólafur en hann og Oddur Gretarsson eru einu leikmenn liðsins sem eru saman á herbergi. Aðrir eru í einstaklingsherbergjum.

„Við pöntuðum okkur herbergi. Það er frábært og betra en að hanga einn inn á herbergi. Við erum að spjalla, lesa og reyna að drepa tímann. Það er gott að hafa félagsskapinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×