Handbolti

Makedónar ósáttir - segja boltann hafa verið inni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Handknattleikssamband Makedóníu hefur lagt fram kæru vegna leiksins gegn Þýskalandi í gær. Þjóðverjar unnu leikinn 24-23 en Makedónar vilja meina að skot Kiril Lazarov nokkrum sekúndum fyrir leikslok hafi verið inni. Íslendingarnir Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu leikinn.

Fjallað er um málið í þýskum og makedónskum fjölmiðlum í dag. Makedónar vilja meina að skot Lazarov hafi hafnað í hjálparstöng sem styður við netið og um augljóst mark hafi verið að ræða. Þeir ganga svo langt að segja ítök Þjóðverja innan Evrópska handknattleikssambandsins svo mikil að þeir hafi meðal annars getað skipt út dómaraparinu nokkrum klukkustundum fyrir leikinn. Sú fullyrðing á þó ekki við rök að styðjast enda var upplýst sólarhring fyrir leikinn að Anton og Hlynur myndu dæma leikinn.

Makedónar krefjast þess að markið verði látið standa og jafntefli verði úrslitin. Annars bjóða þeir upp á að leikurinn verði spilaður að nýju. Vísa þeir í reglur EHF þar sem komi fram að leika verði að nýju ef grundvallarreglur leiksins séu brotnar. Ekki eru taldar miklar líkur á að kröfur Makedóna hljóti hljómgrunn.

„Ég verð að viðurkenna að líkurnar á því að EHF aðhafist eitthvað sem komi Þjóðverjum í uppnám eru afar litlar. Grundvallarreglur voru þó brotnar í leiknum þannig að rétturinn ætti að vera okkar," sagði Dragan Nachevski, formaður handknattleikssambands Makedóníu, við makedónska fjölmiðla.

Atvikið má sjá í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×