Handbolti

Fréttaskýring: Baráttan um auðvelda riðilinn í undankeppni ÓL 2012

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og strákarnir í íslenska landsliðinu standa í ströngu á EM í Serbíu.
Guðmundur Guðmundsson og strákarnir í íslenska landsliðinu standa í ströngu á EM í Serbíu. Mynd/Vilhelm
Ísland á möguleika á að komast í „auðveldasta" riðilinn í undankeppni Ólympíuleikanna í Lundúnum í ár en verður til þess að treysta á árangur annarra liða.

Tólf lið keppa í handbolta á Ólympíuleikunum á næsta ári. Einn gestgjafi, einn heimsmeistari, fjórir álfumeistarar og svo sex lið sem komast í gegnum sérstakar undankeppnir sem haldnar verða í apríl á þessu ári.

Alls komast tólf lið í undankeppnirnar og verður þeim skipt í þrjá riðla. Skiptinguna má sjá hér neðar í greininni. En það mestu skiptir fyrir strákana okkar - sem tryggðu sér þátttökurétt í undankeppninni með því að ná sjötta sæti á HM í Svíþjóð í fyrra - er að einn riðill er talsvert auðveldari en hinir tveir.

Evrópuþjóðir hafa borið höfuð og herðar yfir lið frá öðrum álfum. Alls komast átta Evrópuþjóðir í undankeppnina - þrjú Evrópulið eru því í tveimur riðlum en aðeins tvær í þeim þriðja. Í þann riðil vilja allir komast.

Útreikningarnar sem notast er við til að raða liðunum í riðla eru afar flóknir og verður þess freistað að gera því skil á eins einfaldan máta og hægt er í þessari grein.

Auðvitað væri best fyrir Ísland að vinna Evrópumeistaratitilinn (eða tapa úrslitaleiknum fyrir Frökkum) og öðlast þannig beinan þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Ef það gerist skiptir það sem eftir fer í greininni okkur engu máli.

Ef Ísland verður ekki Evrópumeistari þurfum við, í stuttu máli sagt, að treysta á að einhver eftirtalinna þjóða verði Evrópumeistari eða þá tapi úrslitaleiknum fyrir Frakklandi: Danmörk, Spánn, Svíþjóð og Króatía. Þetta er það sem mestu máli skiptir fyrir Ísland.

Frakkar eru búnir að tryggja sér beinan þátttökurétt þar sem þeir urðu heimsmeistarar í Svíþjóð í fyrra. Ef Frakkland verður einnig Evrópumeistari mun liðið sem endar í öðrum sæti fá farseðilinn til Ólympíuleikanna í stað Frakkanna. Við það hrókerast allt kerfið og Ísland hoppar á milli riðla í undankeppninni - úr erfiðum í þann auðvelda.

Hér er nánari útlisting á þessu:

Þessi lið eru komin áfram:

Gestgjafar: Bretland

Heimsmeistarar: Frakkland

Afríkumeistarar: Túnis

Ameríkumeistarar: Argentína

Asíumeistarar: Suður-Kórea

Evrópumeistarar: Keppni lýkur 29. janúar

Þessi lið bætast í hópinn:

2 efstu liðin úr undankeppni 1

2 efstu liðin úr undankeppni 2

2 efstu liðin úr undankeppni 3

Hvaða lið taka þátt í undankeppnunum:

Undankeppni 1:

Danmörk (2. sæti á HM)

Ungverjaland (7. sæti á HM)

???? (2. sæti á Evrópumóti*)

Alsír (2. sæti í Afríkukeppni)

Undankeppni 2:

Spánn (3. sæti á HM)

Ísland (6. sæti á HM)

Brasilía (2. sæti í Ameríkukeppni)

???? (3. sæti á Evrópumóti*)

Undankeppni 3:

Svíþjóð (4. sæti á HM)

Króatía (5. sæti á HM)

Japan (2. sæti í Asíukeppni)

Chile (3. sæti í Ameríkukeppni)

*Af þeim liðum sem ekki eru þegar komin í undankeppnina.

Útskýring:

Ef Danmörk, Spánn, Svíþjóð eða Króatía fá beinan þátttökurétt á Ólympíuleikunum losnar pláss þeirra í undankeppninni. Liðin sem urðu í næstu sætum á eftir á HM færast upp um eitt pláss og Ísland kæmist þannig í þriðja riðil undankeppninnar.

Pólland varð í áttunda sæti á HM í Svíþjóð og myndi græða á þessu fyrirkomulagi. Ísland var í sömu stöðu og fyrir Ólympíuleikana í Peking árið 2008 þar sem strákarnir lentu í áttunda sæti á HM 2007. Danir (3. sæti á HM 2007) varð Evrópumeistari árið 2008 og settu þar með þessar hrókeringar í gang. Ísland komst í undankeppnina og vann svo silfur í Peking eins og frægt er.

Um hvað eru hin liðin að keppa?

Þau Evrópulið sem ekki eru búin að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna eru nú að berjast um þau tvö (eða mögulega þrjú) sæti sem enn eru laus fyrir Evrópulið í undankeppninni.

En þar sem sjö lið sem eru nú að keppa á EM hafa þegar tryggt sér annað hvort þátttökurétt á leikunum sjálfum eða í undankeppninni þurfa hin liðin ekki að hafa áhyggjur af þeim - þau eru í beinni samkeppni við hvort annað um að vera í efstu tveimur sætunum fyrir utan hin sjö liðin sem þegar eru komin áfram.

Best væri auðvitað fyrir hin liðin að komast áfram sem Evrópumeistarar. Þá fá þau beinan þátttökurétt og þurfa ekki að taka þátt í undankeppninni.

En ef það tekst ekki og eitt af þeim sjö liðum sem þegar eru komin áfram í undankeppnina verður Evrópumeistari er það eina sem gildir að vera fyrir ofan hin liðin sem eru að bítast um sæti í undankeppninni.

Þessi Evrópulið eru komin áfram:

Frakkland (fer ekki í undankeppni)

Danmörk

Spánn

Svíþjóð

Króatía

Ísland

Ungverjaland

(Pólland ef eitthvað af ofantöldum liðum fær beinan þátttökurétt í gegnum EM)

Hin liðin á EM:

Serbía

Þýskaland

Noregur

Rússland

Slóvakía

Tékkland

Makedónía

Slóvenía

Pólland (varð í 8. sæti á HM sem gæti fleytt þeim áfram)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×