Handbolti

Norðmenn búnir að tilkynna sextánda manninn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Hedin, þjálfari norska liðsins.
Robert Hedin, þjálfari norska liðsins. Mynd/Vilhelm
Robert Hedin, þjálfari norska landsliðsins í handbolta, hefur ákveðið að kalla sextánda leikmanninn í hóp liðsins fyrir leikinn gegn Íslandi í kvöld. Það er skyttan Kent Robin Tønnesen sem leikur með Haslum í heimalandinu.

Varnartröllið Johnny Jensen verður í banni í kvöld þar sem að hann fékk að líta rauða spjaldið í leik Noregs og Slóveníu í fyrradag.

Tønnesen hefur verið í kringum norska landsliðið undanfarin ár en hann er 21 árs gamall og 1,91 m á hæð.

Hedin ákvað eins og fleiri landsliðsþjálfarar að tilkynna aðeins fimmtán manns í leikmannahóp sinn áður en mótið hófst. Leyfilegt er að vera með sextán leikmenn í hóp og hefur nú Hedin ákvað að fullnýta sitt svigrúm.

Guðmundur Guðmundsson valdi einnig fimmtán leikmenn í sinn hóp og er með þrjá leikmenn sem eru nú fyrir utan hópinn - Rúnar Kárason, Odd Gretarsson og Aron Rafn Eðvarðsson.

Svo verður leyfilegt að skipta út tveimur leikmönnum að riðlakeppninni lokinni.

Tvö önnur lið bættu við leikmönnum í dag og eru nú með fullskipaða hópa. Ulrik Wilbek, þjálfari Dana, ákvað að kalla á hinn þaulreynda Bo Spellerberg og þjálfari ungverska landsliðsins hefur einnig ákvað að kalla á sinn sextánda mann.

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 19.10 og verður lýst á Boltavakt Vísis og Fréttablaðins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×