Handbolti

Guðmundur má velja Snorra og Ólaf í milliriðilinn

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Sá möguleiki er tæknilega fyrir hendi að annað hvort Snorri Steinn Guðjónsson eða Ólafur Stefánsson komi til móts við landsliðið í milliriðlinum að því gefnu að íslenska liðið komist þangað.

Báðir leikmenn eru í 28 manna hópi liðsins sem var tilkynntur um miðjan desember. Þó svo þeir séu ekki með liðinu hér úti er Guðmundi landsliðsþjálfara leyfilegt að hóa í þá ef hann vill. Þegar komið er í milliriðilinn má gera tvær breytingar á hópnum. Allir í 28 manna hópnum eru löglegir.

"Ég útiloka ekki neitt en þetta er samt ekki eitthvað sem við höfum verið að ræða eða skoða. Eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til þess að annar hvor þeirra komi til móts við okkur," sagði Guðmundur aðspurður hvort það mætti útiloka það að hann nýtti þennan valmöguleika.

Líklegt verður að telja miðað við þessi orð Guðmundar að hann muni ekki trufla annan hvorn þeirra nema eitthvað stórkostlegt komi upp á hér í Serbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×