Handbolti

Spánverjar náðu bara jafntefli á móti Ungverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungverjar fagna í leikslok.
Ungverjar fagna í leikslok. Mynd/AFP
Spánverjar náðu ekki að fylgja eftir frábærum sigri á Frökkum í fyrsta leik sínum því liðið gerði bara jafntefli á móti Ungverjalandi, 24-24, í kvöld í seinni leik dagsins í C-riðli Evrópukeppninnar í Serbíu. Ungverjar skoruðu tvö síðustu mörkin og tryggðu sér jafntefli.

Gábor Császár skoraði tvö síðustu mörkin í leiknum þar á meðal jöfnunarmarkið úr víti eftir að leiktíminn var liðinn. Spánverjar skoruðu ekki síðustu fjórar mínúturnar og það nýttu Ungverjarnir sér og náðu í stig í öðrum leiknum í röð en þeir gerðu einnig jafntefli við Rússa í fyrstu umferðinni.

Gábor Császár og Tamás Mocsai skoruðu báðir sjö mörk fyrir Ungverja en Joan Cañellas var markahæstur hjá Spánverjum með sex mörk.

Spánverjar byrjuðu vel og komust í 3-0 en Ungverjar voru fljótir að jafna og voru síðan 12-11 yfir í hálfleik. Spánverjar skoruðu 5 mörk gegn 1 um miðjan seinni hálfleik og komust yfir í 19-17 en Ungverjar héngu í þeim og náðu síðan jafnteflinu í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×